EVE Online Sinfonía

Um viðburðinn

EVE Online Sinfonía
Sinfóníuhljómsveit Íslands spilar í Hörpunni fyrir EVE Fanfest 2013

Glænýjum og öðruvísi viðburði hefur verið bætt við dagskrá Sinfóníuhljómsveitar Íslands í Hörpunni. EVE Online, hinn heimsþekkti sýndarveruleiki sem þróaður hefur verið af íslenska tölvuleikjafyrirtækinu CCP Games, heldur upp á tíu ára afmæli sitt á næsta ári, og í tilefni þess mun Sinfóníuhljómsveitin spila tónlist úr EVE Online og marka þar með byrjun hátíðahaldanna fyrir EVE spilarahátíðina sem fram munu fara í Apríl á næsta ári. Hægt verður að sjá svipbrot af mikilli sjónrænni fegurð leikjarins á hvíta tjaldinu á meðan á tónleikunum stendur. Missið ekki af þessari einstöku upplifun!

Jón Hallur Haraldsson (einnig þekktur sem RealX) hefur verið hjá CCP síðan árið 2000, og á árunum 2002 til 2009 skrifaði hann upprunalegu tónlistina fyrir EVE Online. Að öðrum eiginleikum leikjarins ólöstuðum hefur tónlistin í honum ávallt verið ein af sterkustu einkennum hans. Tónlist Jóns Halls hefur verið lýst sem sterkri skírskotun í sveimtónlist níunda áratugarins – einskonar blöndu af Jean-Michel Jarre og Vangelis. Þessi tónlist er nú orðin nokkurn veginn sígild fyrir þeim sem á hana hlýða, og mætti segja að hún verði sígildari en nokkru sinni fyrr nú þegar hún mun í fyrsta sinn vera flutt af sinfóníuhljómsveit. Leikmenn hvaðanæva að úr heiminum hafa lofað tónlistina og margoft beðið um meira, og það er aldrei að vita nema RealX lumi á einhverju nýju meistaraverki í náinni framtíð. Hann er enn virkur meðlimur í tónlistar- og hljóðdeild leikjarins og er þar að auki nýverið farinn að fást við hljóðforritun.

EVE sinfónían samanstendur af tíu frægum lögum úr EVE, s.s. "Stellar Shadows" og "Surplus of Rare Artifacts", og var það tónskáldið Kristján Guðjónsson sem setti þau upp fyrir sinfóníuhljómsveit. Í gegnum nákvæma nálgun á tónlistinni tekst Kristjáni að færa hvert lag í sinfóníubúning sem er nógu líkur upprunalegu útgáfunni til að kunnugir þekki það, en notast á sama tíma við þau tónundur sem aðeins sinfóníuhljómsveit getur framkvæmt.

Sinfóníuhljómsveit Íslands var stofnuð árið 1950 og er búin að skipa sér sess sem ein fremsta sinfóníuhljómsveit Norðurlanda. Hún hefur haldið fræga tónleika og tekið upp út um allan heim við frábærar undirtektir, þar á meðal fyrir útgáfufyrirtækin BIS, Chandos og Naxos. Þetta verður ekki einungis í fyrsta sinn sem tónlistin úr EVE verður spiluð af sinfóníuhljómsveit, heldur verður þetta einnig fyrsta skipti sem Sinfóníuhljómsveit Íslands mun spila tónlist úr tölvuleik.

Hljómsveitarstjórinn Guðni Franzson hefur verið virkur í tónlistarlífi landsins, m.a. sem hljómsveitarstjóri, klarínetteinleikari, tónlistarkennari og tónskáld sem er þekkt fyrir mikla flóru stílbrigða í tónsmíðum sínum. Guðni hefur komið fram sem einleikari vítt og breitt um Evrópu, Norður- og Suður-Ameríku, Sovétríkin og Japan. Einnig hefur hann samið tónverk fyrir fjöldamörg leikrit og danssýningar ásamt kammertónlist, barnatónlist og tónlist fyrir óhefðbundin hljóðfæri. Hann fæst þessa dagana við reglulega hljómsveitarstjórn fyrir nokkrar sinfóníuhljómsveitir, og fjölbreytt reynsla hans mun hjálpa ómælt við það að glæða EVE sinfóníuna enn meira lífi.