Björk

Um viðburðinn

Biophilia - sérstakir tónleikar með Björk

Það er skipuleggjendum Iceland Airwaves sönn ánægja að tilkynna að Björk heldur sérstaka tónleika á Iceland Airwaves tónlistarhátíðinni í október næstkomandi. Tónleikarnir eru samstarfsverkefni Iceland Airwaves, Smekkleysu og Manchester International Festival. Icelandair er helsti stuðningsaðili Iceland Airwaves og Biophiliu á Íslandi. Tónleikarnir, haldnir í Silfurbergi í Hörpu, verða sex talsins og auk þeirra verða sett upp sérstök sýning og fræðsluverkefni  fyrir börn í tengslum við verkefnið. Náttúra, vísindi og tónlist eru tengd saman með algjörlega einstökum hætti.

Á tónleikunum mun Björk flytja lög af væntanlegri plötu sinni, auk laga sem fest hafa hana í sessi sem listamann í gegnum árin. Hópur af frábæru tónlistarfólki, þ.á.m. Graduale Nobili, 24 manna íslenskur stúlknakór, kemur að flutningnum. Sérhönnuð hljóðfæri eru notuð við flutninginn, m.a.  pípuorgel sem stjórnað er stafrænt og rúmlega 3 metra hár pendúll sem nýtir sér þyngdarafl jarðar til að skapa tónmynstur. Þessi hljóðfæri eru engu lík og voru sérstaklega smíðuð í samstarfi við Björk fyrir verkefnið. Þau verða hluti Biophilia sýningar sem opnuð verður 10. október. Einnig verðar haldnir sérstakir fræðsludagar fyrir börn þar sem heimur Biophiliu verður kynntur og þeim gert kleift að taka þátt.

Biophilia var fyrst sett á Manchester listahátíðinni sem nú stendur yfir og mun ferðast til nokkurra valinna borga í heiminum. Reykjavík er næst í röðinni á undan fjölmörgum stórborgum. Það er því skipuleggjendum Iceland Airwaves sérstakur heiður að kynna Björk til leiks í Reykjavík og ef marka má viðtökur og dóma sem birst hafa um verkefnið erlendis eiga tónleikagestir sannkallaða veislu í vændum.

Húsið opnar kl. 18 og hefjast tónleikar kl. 20. Keyptir miðar verða afhentir í Hörpu.

Fyrir gesti Iceland Airwaves eru 200 miðar í boði endurgjaldslaust á hvora tónleika (12. og 16. október). Þeim verður útdeilt eftir „fyrstur kemur, fyrstur fær“ reglunni á tónleikadegi.

Vinsamlega athugið að eingöngu 700 miðar eru í boði á hverja tónleika. Nánari upplýsingar um miðasöluferlið má finna hér