Í skugga Sveins

Um viðburðinn

Í Skugga Sveins er nýtt leikrit eftir Karl Ágúst Úlfsson byggt á Skugga-Sveini eftir Matthías Jochumsson, einu af elstu, ástsælustu og vinsælustu leikverkum á íslensku.  Í skugga Sveins er fyndinn og spennandi fjölskyldusöngleikur, fullur af sprelli og kostulegum persónum - fjörugt og nútímalegt verk sem byggir á rótgróinni hefð. 

Leikarar í sýningunni eru Karl Ágúst Úlfsson sem margir muna eftir úr Spaugstofunni, Góða Dátanum Svejk og Umhverfis jörðina á 80 dögum, Kristjana Skúladóttir leikkona og söngkona sem hefur t.a.m gert garðinn frægan í Krakka RÚV  og Eyvindur Karlsson, sem bæði lék í Góða dátanum Svejk og samdi tónlistina. Ágústa Skúladóttir er leikstjóri en hun hefur leikstýrt fjölda vinsælla leikverka, t.a.m. Ævintýrum Múnkhásens í Gaflaraleikhúsinu, Línu Langsokk í Borgarleikhúsinu,Umhverfis jörðina á 80 dögum í Þjóðleikhúsinu, Töfraflautu Mozarts í  Íslensku óperunni og nú síðast Kvenfólki með Hundi í óskilum hjá Leikfélagi Akureyrar.

Í skugga Sveins er lifandi og stórskemmtileg sýning fyrir alla fjölskylduna, þar sem fjallað er um fordóma og spurningar um réttlæti og ranglæti.