Systir Angelica

Um viðburðinn

Óp-hópurinn sýnir óperuna Systir Angelica eftir Puccini laugardaginn 16. mars 2013
kl. 17 og kl. 20 í Tjarnarbíói. Miðaverð er 3200 kr / 2900 kr. Óperan er sett á svið í samstarfi við Flensborgarkórinn. Leikstjóri er Randver Þorláksson og Antonía Hevesi er tónlistarstjóri og píanóleikari. Kórstjóri Flensborgarkórsins er Hrafnhildur Blomsterberg. Óperan er flutt á ítölsku en íslenskum texta er varpað á skjá.

Óperan er einþáttungur og tekur um 60 mínútur í flutningi. Í henni eru einungis kvenhlutverk.
Aðalpersóna óperunnar, systir Angelica, er þvinguð til að ganga í klaustur eftir að hafa kallað skömm yfir fjölskylduna þegar hún eignast barn utan hjónabands. Sagan lýsir að hluta til viðhorfi samfélagsins til kvenna fyrr á tímum en „skömm“ Angelicu þykir enn fjölskylduskömm víða um heim sem er mætt með útskúfun á einn eða annan hátt. Með uppfærslunni vilja aðstendendur sýningarinnar vekja athygli á alþjóðlegum baráttudegi kvenna (8.mars). Tónlist Puccini er undurfögur og atburðarrásin er harmræn enda tekur aðalsöguhetjan, sem er bæði móðir og nunna, afdrifaríka ákvörðun til þess að hitta barnið sitt sem hún hafði verið neydd til að skilja við.

Með aðalhlutverkin fara:
Systir Angelica: Bylgja Dís Gunnarsdóttir (kl.17) og Erla Björg Káradóttir (kl.20)
Prinsessan: Hörn Hrafnsdóttir (kl.17) og Jóhanna Héðinsdóttir (kl.20)

Önnur hlutverk:
Björg Birgisdóttir, Edda Austmann, Hanna Þóra Guðbrandsdóttir, Helga Magnússdóttir, Ingveldur Ýr Jónsdóttir, Margrét Einarsdóttir, Svava Kristín Ingólfsdóttir,  Valgerður G. Halldórsdóttir og Þórunn Marínósdóttir. Nemendur úr Söngskólanum Domus Vox, Flensborgarkórinn, Orgel/Celesta: Lenka Mateova
Harpa: Sophie Schoonjans

Nánar um söguþráð óperunnar. 
Systir Angelica hefur eytt undanförnum sjö árum ævi sinnar í klaustri án þess að aðalbornir ættingjar hennar hafi vitjað hennar. Dag einn birtist frænka hennar, Zia Prinzipessa, til að fá undirskrift Angelicu svo hægt verði að skipta eigum hennar og systur hennar sem er að fara að gifta sig. Þegar Angelica spyr hver biðill systurinnar sé svarar frænkan því til að það sé eini maðurinn sem hafi viljað kvænast systur hennar eftir þá skömm sem Angelica hafi leitt yfir fjölskylduna. Angelica spyr þá um son sinn sem hún ól, ógift,  fyrir sjö árum. Eftir nokkurt þóf segir frænkan að hann hafi dáið fyrir tveimur árum. Angelica yfirbugast af sorg og þegar hún er aftur ein ákveður hún að drekka seyði af eitruðum jurtum. Þegar hún hefur gert það verður henni ljóst að þar með hafi hún drýgt þá dauðasynd  að taka eigið líf og ákallar heilaga guðsmóður og biður um fyrirgefningu. Í þann mund heyrist englasöngur og í andaslitrunum sér Angelica Maríu mey birtast sér með son hennar í fanginu.