Reykholtshátíð 2017

Um viðburðinn

Föstudagur 28. júlí kl. 20
„Bach og Pärt”
Opnunartónleikar Reykholtshátíðar
Schola Cantorum
Hljóðfæraleikarar Reykholtshátíðar

J.S. Bach og Arvo Pärt þarf vart að kynna fyrir tónleikagestum. Bach er eitt áhrifamesta og dáðasta tónskáld allra tíma og Arvo Pärt er það samtímatónskáld sem náð hefur hvað mestum frama og útbreiðslu með sínum einkennandi stíl. Þó svo að 250 ár aðskilji þá félaga að þá eiga þeir fleira sameiginlegt en í fyrstu mætti halda. Báðir hafa þeir haft áhrif langt út fyrir heim klassískrar tónlistar og hjá báðum njóta kórverk þeirra sérstöðu og hafa jafnvel lagt grunninn að velgengni þeirra. Það er því mikið tilhlökkunarefni að fá að heyra kammerkórinn Schola Cantorum undir stjórn Harðar Áskelssonar flytja nokkur af öndvegisverkum þessara tveggja meistara, en kórinn hlaut Íslensku tónlistarverðlaunin sem Tónlistarflytjandi árið 2016. Jafnframt munu hljóðfæraleikarar Reykholtshátíðar flytja eitt af öndvegisverkum Bach, Brandenburgar konsert nr. 3.

Laugardagur 29. júlí kl. 16
„Vínarklassík og smámyndir”
Kammertónleikar
Meta4 strengjakvartettinn

Það er Reykholtshátíð mikill heiður að bjóða gestum hátíðarinnar upp á tónleika með finnska strengjakvartettnum Meta4. Kvartettinn er leiðandi í sínu fagi í Skandinavíu og heldur reglulega tónleika í ekki ómerkari sölum en í Wiener Konzerthaus, Wigmore Hall, Auditorio Nacional í Madríd og Cité de la Musique í París. Kvartettinn hefur gefið út 3 diska hjá þýsku Hänssler Classics útgáfunni sem hafa unnið til fjölda verðlauna, bæði alþjóðlegra sem og innan Finnlands. Á efnisskrá tónleikanna kallast á hið gamla og nýja. Við fáum að heyra Beethoven-strengjakvartett úr op. 18 setti meistarans og nýlegt verk eftir Juha Koskinen, eitt áhugaverðasta finnska tónskáld sinnar kynslóðar. Í lok tónleikanna mun Mozart-strengjakvintett í c-moll hljóma og bætist Þórunn Ósk Marinósdóttir lágfiðluleikari í hópinn. Þetta eru tónleikar sem unnendur kammertónlistar mega ekki láta fara fram hjá sér.

Laugardagur 29. júlí kl. 20
„Þjáning í sælu”
Söngtónleikar
Dísella Lárusdóttir, sópran
Nína Margrét Grímsdóttir, píanó

Það er löng hefð fyrir því á Reykholtshátíð að halda söngtónleika þar sem einsöngsrödd og píanó fá að njóta sín til fullnustu. Í ár eru það tónlistarkonurnar Dísella Lárusdóttir sópran og píanóleikarinn Nína Margrét Grímsdóttir sem munu gleðja áheyrendur með söng og leik. Dísella og Nína Margrét eru meðal okkar þekktustu tónlistarmanna. Dísella er fastráðin við Metropolitan-óperuna en hefur jafnframt komið reglulega fram á tónleikum hér heima. Nína Margrét hefur víða komið við sem einleikari, kammertónlistarmaður og fræðimaður. Hún er  m.a. listrænn stjórnandi Reykjavík Classics-tónleikaraðarinnar í Eldborg í Hörpu. Efnisskrá tónleikanna leiðir okkur í víðfemt ferðalag um Evrópu á seinni hluta nítjándu aldar og fyrri hluta þeirrar tuttugustu. Við fáum að heyra verk eftir jafn ólík tónskáld og hinn franska Debussy, þýska Strauss, rússneska Rachmaninoff og hinn seiðandi spænska de Falla.

Sunnudagur 30. júlí kl. 16
„Stef og tilbrigði”
Lokatónleikar Reykholtshátíðar
Hljóðfæraleikarar Reykholtshátíðar

Lokatónleikar Reykholtshátíðar eru sannkallað bland í poka. Nú bætist blásari í hópinn og flautukvartett Mozarts í A-dúr fær að hljóma í meðförum Berglindar Stefánsdóttur og félaga. Belgíski sellósnillingurinn og tónskáldið Adrien-François Servais er nafn sem er flestum löngu fallið í gleymsku. Hann var þó einn af áhrifamestu sellóleikurum 19. aldar og þeir Ari Þór Vilhjálmsson og Sigurgeir Agnarsson leika tilbrigði Servais við lagið God Save the King (Eldgamla Ísafold) fyrir fiðlu og selló. Þar nýtir Servais þekkingu sína á strengjahljóðfærum til fullnustu og þurfa þeir félagar að kljást við allskyns þrautir af hálfu tónskáldsins áður en lokahljómnum er náð. Að lokum hljómar, í fyrsta sinn á Reykholtshátíð, eitt dáðasta kammerverk allra tíma, Strengjaoktett í Es-dúr op. 20 eftir Mendelssohn. Þetta verk er uppfullt af andagift og æskufjöri, enda var tónskáldið einungis 16 ára að aldri þegar verkið var samið.