Alþjóðlegt Orgelsumar

Um viðburðinn

Stutt lýsing: Verið velkomin á tónleikaröðina Alþjóðlegt orgelsumar Hallgrímskirkju 2017. Í 25.sinn verður sumarið í Hallgrímskirkju fyllt af orgelómum. Í ár koma fram afburða konsertorganistar í fremstu röð frá ýmsum löndum. Fimmtudaginn 20. júlí flytja Einar Jóhannesson klarinettleikari og Douglas A Brotchie orgelleikari spennandi og fjölbreytta tónlist eftir J.S. Bach, Jónas Tómasson, Otto Olsson og G. Tartini. Það er einstök upplifun að heyra klarinet og orgel leika saman í yndislegum hljómburði Hallgrímskirkju.

Einar Jóhannesson fæddist í Reykjavík og nam klarínettleik við Tónlistarskólann í Reykjavík hjá Gunnari Egilson og í The Royal College of Music í London þar sem kennarar hans voru Bernard Walton og John McCaw. Þar vann hann til hinna virtu Frederick Thurston verðlauna. Árið 1976 vann Einar samkeppni um þátttöku í “Live Music Now“ sem Sir Yehudi Menuhin stofnaði og hlaut síðar Sonning verðlaunin fyrir unga norræna einleikara. Einar er einn þeirra klarínettleikara sem fjallað er um í bók breska tónlistarfræðingsins Pamelu Weston Clarinet Virtuosi of Today. Hann er tíður gestur á tónlistarhátíðum víða um heim og hefur leikið fyrir útvarps- og sjónvarpsstöðvar margra landa. Einar hefur frumflutt fjölda verka sem eru sérstaklega skrifuð fyrir hann, jafnt einleikskonserta, kammerverk og verk fyrir einleiksklarínett. Einar var 1. klarínettleikari Sinfóníuhljómsveitar Íslands 1980-2012. Hann er stofnfélagi Blásarakvintetts Reykjavíkur sem hefur getið sér gott orð á alþjóðlegum vettvangi. Einar er einnig félagi í miðaldasönghópnum Voces Thules.

Douglas A. Brotchie er fæddur í Edinborg í Skotlandi en er orðinn íslenskur ríkisborgari eftir meira en þrjátíu ára dvöl hér á landi. 

Hann byrjaði að læra á orgel um fermingaraldur og strax við sextán ára aldur var hann ráðinn organisti og kórstjóri við Balerno sóknarkirkjuna í útjaðri Edinborgar.

Douglas var annar organisti Dómkirkju Krists Konungs (Landakotskirkju) í mörg ár, organisti Hallgrímskirkju í eitt ár í leyfi Harðar Áskelssonar og organisti Háteigskirkju frá 1999 til 2011. Hann hefur haldið tónleika víða um Evrópu bæði sem einleikari og meðleikari, þ.á m. í Skotlandi, Ungverjalandi og Þýskalandi. Hann hefur oft komið fram sem organisti í sjónvarpi og útvarpi hérlendis og hefur leikið inn á fjölda geisladiska.

20. júlí kl. 12.00 - 12:30    
Exultavit Einar Jóhannesson klarinet og Douglas A. Brotchie orgelleikari

EFNISSKRÁ

Johann Sebastian Bach 1685–1750
   Prelúdía í fís-moll, nr. 14, BWV 883

Jónas Tómasson   *1946   Exultavit Maria

Otto Olsson   1879–1964   Alma redemptoris mater

Giuseppe Tartini  1692–1770    Concertino

Út.: / Arr.: Gordon Jacob   I   Grave
   II  Allegro molto
   III  Adagio
   IV  Allegro risoluto