Gus Gus 3

Um viðburðinn

Viðburðafyrirtækið Jón Jónsson kynnir fyrstu tónleika GusGus á árinu og verða þeir haldnir á Nasa 20. mars næstkomandi.

GusGus spiluðu síðast hér á landi á síðustu Iceland Airwaves við frábærar undirtektir tónleikagesta og tónlistarskríbenta, inn- sem og erlendra. GusGus spiluðu einnig á nokkrum tónleikum erlendis seint á síðasta ári, þ.á.m. í Bern, Moskvu, Tokyo og í Berlín þar sem þeir spiluðu á showcase-tónleikum á vegum nýrrar bókunarstofu þeirra, Wilde Bookings. Berlín-tónleikarnir voru lofaðir hástert af þýskum fjölmiðlum og sjónvarpstöðinni MTV sem voru á tónleikunum ásamt útsendurum virtra hljómplötuútgáfa sem hafa verið áhugasamar um hljómsveitina.

GusGus hafa fyllt Nasa í hvert einasta skipti sem sveitin hefur troðið þar upp. Á tónleikum verður sérútbúið ljósa-show sveitarinnar og hljóðkerfi verður lagað að þeirra þörfum svo að áhorfandinn fái sem mest útúr upplifuninni sem tónleikar GusGus eru.

GusGus hafa klárað lokahnykkinn á sjöttu hljóðversskífu sinni og hefur hún hlotið heitið "24/7" eins og áður hefur komið fram. Breiðskífan var að mestu leyti unnin af meðlimum sveitarinnar, þeim Birgi Þórarinssyni (e.þ.s. Veiran), Daníel Ágúst Haraldssyni og Stephan Stephenssen (e.þ.s. President Bongo) í Tankinum við Önundarfjörð og í hljóðveri GusGus í Reykjavík. "24/7" kemur út í júní hjá einu raftónlistarfyrirtæki í heiminum í dag.

Jón Jónsson ehf. hefur nánast eingöngu sérhæft sig í skipulagninu fyrsta flokks klúbbakvölda í Reykjavík og á Akureyri og má þar nefna kvöld með plötusnúðum á borð við DJ Mehdi og Busy P frá Ed Banger útgáfunni í Frakklandi, Carl Cox, Dusty Kid, Yuksek. Einnig hefur fyrirtækið haldið utan um fyrri tónleika GusGus á Íslandi sem og tónleika Ratatat og Sebastien Tellier.

20 ára aldurstakmark.