Jólahátíð Kölska

Um viðburðinn

Hljómplötuútgáfan Kölski heldur Jólahátíð Kölska á Sódóma Reykjavík 26. desember. Fram koma hljómsveitirnar Dikta og Ourlives sem báðar gáfu út plötur hjá Kölska á árinu, en einnig koma fram hinar stórskemmtilegu sveitir Agent Fresco og Vicky.

Netsölu er nú lokið, miðar verða seldir við inngang

Dikta gaf nýverið út plötuna Get it Together, sem inniheldur m.a. lögin Let Go og Just Getting Started, sem og mest spilaða lagið í íslensku útvarpi sl. 2 vikur, sem er lagið From Now On. Eftir stappfulla útgáfutónleika á Nasa hefur Dikta verið iðin við spilamennsku vítt og breitt um höfuðborgarsvæðið og auk þess haldið útgáfutónleika á Akureyri. Drengirnir eiga þó nóg eftir og verður öllu tiltjaldað á Sódóma annan í jólum.

Ourlives gáfu nýverið út plötuna We Lost The Race undir merkjum Kölska. Platan hefur að geyma frábærar lagasmíðar og metnaðarfullar útsetningar sem hafa heillað hlustendur að undanförnu. Það er sjaldgæft að fyrsta plata hljómsveitar innihaldi jafn mörg lög sem hljómað hafa í útvarpi og þessi frumburður Ourlives. Lagið Núna var mest spilaða lagið á útvarpsstöðinni X-inu og hið vinsæla lag Out Of Place sat í fyrsta sæti vinsældarlista Rásar 2 og fór á topp X-Dominos listans.

Agent Fresco hófu ferilinn með stæl, með því að sigra Músíktilraunir Tónabæjar árið 2008, aðeins nokkrum vikum eftir að bandið var stofnað. Þeir gáfu svo út sína fyrstu plötu fyrir ári síðan undir eigin merkjum, en það var stuttskífan Lightbulb Universe. Hafa mörg laga hennar hljómað mikið í útvarpi og þá sérstaklega lagið Eyes of a Cloud Catcher. Þeir eru þekktir fyrir að vera ein allra þéttasta og trylltasta tónleikasveit landsins og fer jafnan enginn svikinn heim af tónleikum þeirra.

Vicky er ung hljómsveit sem samanstendur af fjórum stelpum og einum dreng. Erfitt er að draga tónlist þeirra í dilka, en hún hefur m.a. verið kölluð popp-metall. Þau sendu frá sér sína fyrstu breiðskífu fyrir ári undir eigin merkjum, en það var platan Pull Hard sem hlaut mjög góðar viðtökur.

Þú hefur ekkert betra að gera að kvöldi annars dags jóla en að skella þér á síðustu góðu rokktónleika ársins, svo mikið er víst.

20 ára aldurstakmark.