Rímur og Saumur

Um viðburðinn

Norski raddhópurinn Trio Mediaeval og tríóið Saumur, skipað þeim Arve Henriksen, Hilmari Jenssyni og Skúla Sverrissyni leiða saman hesta sína á tónleikum í Hallgrímskirkju, laugardaginn 21. janúar klukkan 19.

Trio Mediaeval er skipað norsku söngkonunum Önnu Mariu Friman, Linn Andrea Fuglseth og Berit Opheim. Tríóið var stofnað árið 1997 í Osló og hefur frá upphafi einbeitt sér að flutningi miðaldatónlistar og nýrrar tónlistar en hópurinn hefur átt í frjóu samstarfi við nokkra af fremstu tónskáldum og tónlistarmönnum samtímans. Hópurinn hefur gefið út sex plötur hjá hinni virtu ECM-útgáfu sem hafa verið tilnefndar til Grammy-verðlauna, prýtt efstu sæti Billboard-lista og fengið frábærar viðtökur hjá gagnrýnendum stórblaða á borð við The New York Times, þetta eru plöturnar  Words of the Angel (2002), Soir, dit-elle (2004), Stella Maris (2005), Folk Songs (2007), A Worcester Ladymass (2011) og Aquilonis (2014). Trio Mediaeval hefur komið fram vítt og breitt í Evrópu og Bandaríkjunum á virtum tónleikastöðum á borð við The Wigmore Hall og Barbican Centre í Lundúnum, Concertgebouw í Amsterdam, Bozar í Brussel, The Carnegie Hall í New York og The Kennedy Center í Washington DC. Þetta er í fyrsta sinn sem þessi rómaði tónlistarhópur kemur fram á Íslandi.

Tríóið Saumur er skipað þremur af fremstu djasstónlistarmönnum Norðurlandanna, Arve Henriksen, Hilmari Jenssyni og Skúla Sverrissyni, sem saman gáfu út plötuna Saumur í júlí síðastliðnum hjá Mengi en platan markaði upphafið að samstarfi þeirra sem tríós. Þeir hafa verið í fararbroddi í norrænni og alþjóðlegri tónlistarsenu um árabil, spilað með mörgum af helstu spuna- og djasstónlistarmönnum samtímans, haldið tónleika vítt og breitt um heiminn og gefið út ógrynni af plötum