Skálmöld

Um viðburðinn

VÖGGUVÍSUR YGGDRASILS – ÚTGÁFUTÓNEIKAR

Skálmöld gaf út sína fjórðu breiðskífu seint á síðasta ári. Nú skal útgáfunni fagnað með veglegum tónleikum.

Hefð hefur skapast fyrir því að halda sitjandi útgáfutónleika eftir hverja útgáfu Skálmaldar og engin breyting skal á því gerð nú. Vögguvísur Yggdrasils er metnaðarfullt tónverk eins og Skálmeldinga er von og vísa, myndræn saga í mörgum köflum og vel fallin til frásagnar á stóru sviði. Fyrri sögur sveitarinnar hafa þannig verið sagðar í máli og myndum, sögumenn og leikarar hafa stigið á svið, textasmíðum varpað upp á tjald og allt sett í hátíðarbúning og þá aðeins á þessum sértilgreindu útgáfutónleikum. Þetta eru þungarokkstónleikar fyrir alla aldurshópa, unga sem aldna, í svolítið aðgengilegra andrúmslofti en gengur og gerist með slíka tónlist.

Allar hljómplötur Skálmaldar hafa náð gullsölu á Íslandi og þessi urrandi þungarokksmaskína verið ein allra vinsælasta hljómsveit landsins um árabil. Sökum stífrar dagskrár utan landssteinanna hefur tækifærum til tónleikahalds hér heima farið ört fækkandi og alls ekki fyrirsjáanlegt að það breytist í bráð. Þetta er tækifærið til að sjá nýju plötuna flutta við bestu aðstæður og þar að auki úrval af eldra efni Skálmaldar.